50 milljónir í tilefni afmæla

Líknarsjóður Ögnu og Halldórs Jónssonar færði Barnaspítala Hringsins og Hjartavernd væna styrki í tilefni aldarafmælis.

Þriðjudaginn 12. janúar s.l. voru veittir styrkir úr Líknarsjóði Ögnu og Halldórs Jónssonar. Að þessu sinni var úthlutað úr sjóðnum í tilefni af aldarafmæli þeirra Ögnu og Halldórs og 60 ára afmæli Halldórs Jónssonar ehf. Fyrsta úthlutun úr sjóðnum fór fram árið 2010 og fram til þessa hafa 12 aðilar fengið samtals 40 milljónir í styrki. Barnaspítalinn og Hjartavernd hlutu kr. 25 milljónir hvort í styrk.

Halldór Jónsson fæddist 16. janúar 1916 á Kirkjubæ í Hróarstungu og lést þann 23. febrúar 1977. Agna Guðrún var fædd í Danmörku þann 29. nóvember 1915 og lést þann 24. ágúst 2009. Agna og Halldór stofnuðu fyrirtækið Halldór Jónsson ehf þann 1. febrúar 1955. Agna stofnaði Líknarsjóð Ögnu og Halldórs Jónssonar árið 1982 og átti hann að taka til starfa að henni látinni. Hún ánafnaði sjóðnum allar eigur þeirra hjóna og er hlutverk hans að styrkja hvers konar líknarmál á Íslandi. Stjórn sjóðsins skipa Kristján S. Sigmundsson, Martha Eiríksdóttir og Jón Grímsson.

Barnaspítali Hringsins og Hjartavernd voru þeim Ögnu og Halldóri mjög hugfólgin. Agna starfaði í Thorvaldsenfélginu um áratuga skeið, en það félag hefur verið dyggur bakhjarl Barnaspítalans í gegnum tíðina. Halldór bar mjög fyrir brjósti gengi Hjartaverndar og lagði m.a. sitt af mörkum við stofnun Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar sem tók til starfa haustið 1967.

Að sögns Ásgeirs Haraldssonar prófessors í barnalækningum og yfirlæknis á Barnaspítala Hringsins mun þessi styrkur nýtast Barnaspítalanum afar vel. Þúsundir barna leita á Barnaspítala Hringsins ár hvert og er afar mikilvægt að spítalinn sé vel tækjum búinn. Styrkurinn verður notaður í kaup á mismunandi tækjum á ýmsar deildir spítalans. Stærstur hluti styrksins mun nýtast barnaskurðdeildinni í samstarfi við skurðstofur Landspítalans og speglunardeild. Dýrasta tækið er hjarta- og lungnavél sem notuð er við hjartaaðgerðir á börnum. Einnig verða keypt tæki til speglunaraðgerða og rannsókna.

Greining krampa og sjúkdóma í heila barna getur verið flókin. Til að bæta greiningu slíkra sjúkdóma og ákvarða meðferð af aukinni nákvæmni mun styrkurinn vera notaður til kaupa á svokölluðum heilasírita. Með slíku tæki má gera heilarit í lengri tíma, t.d. í sólarhring og fá þannig betri upplýsingar.

Á Barnaspítala Hringsins hefur nýlega verið hafin meðferð með glaðlofti til að auðvelda börnum einföld inngrip sem annars gætu verið sársakafull eða vakið ótta. Meðferð þessi hefur gengið vel og verður hluti styrksins notaður til að bæta við tækjum og búnaði til að auka þessa þjónustu. Jafnframt munu allar deildir spítans geta endurnýjað tæki til að gefa öndunarfæralyf með innöndunarúða.

Heilsuskóli Barnaspítala Hringsins aðstoðar börn sem glíma við offituvandamál. Heilsuskólinn mun eignast sérstakt mælitæki til að meta líkamssamsetningu og líkamshlutföll barna.

Loks mun leikstofa Barnaspítalns eignast nýjar spjaldtölvur til að stytta börnum stundir meðan þau þurfa að dvelja á Barnaspítala Hringsins.

Að sögn Vilmundar Guðnasonar, forstöðulæknis Hjartaverndar hefur Hjartavernd um áratugaskeið stundað rannsóknir á mati á áhættu á að fá hjarta – og æðasjúkdóm. Þegar er aðgengilegur áhættureiknir á heimasíðu Hjartaverndar sem reiknar út líkur á að fá hjartaáfall á næstu tíu árum. Áhættureiknirinn reynist vel en ljóst er þó að langstærsti hluti þeirra einstaklinga sem fá hjartaáfall reiknast í lágri – eða miðlungs áhættu og fá því klapp á bakið og oft falskt öryggi þótt þeir séu klárlega með ógreindan æðasjúkdóm.

Á undanförnum árum hefur Hjartavernd unnið að gerð nýs áhættureiknis sem sannreynt hefur verið að virkar og reiknar út líkurnar á því að hafa þegar merkjanlegan æðasjúkdóm í hálsslagæðum, sem er talinn mælikvarði á æðakölkun sem er forsenda þess að fá hjartaáfall. Með ómskoðunarrannsókn er unnt að finna æðakölkunina og beita markvissum aðferðum til að sporna við frekari þróun og afleiðingum sjúkdómsins. Hjartavernd vinnur núna að því gera lokarannsóknir og útbúa umræddan áhættureikni til almennrar notkunar m. a. í heilsugæslunni.
Hér er um mikilvægt framlag Hjartaverndar að ræða til komandi kynslóða sem mun minnka sjúkdómabyrði heilbrigðiskerfisins umtalsvert og auka lífsgæði einstaklinga. Styrkveitingin mun því nýtast Hjartavernd vel við áframhaldandi rannsóknir með nýjum áhættureikni.

Mynd talið frá vinstri

Kristín Siggeirsdóttir, framkvæmdarstjóri þróunar Hjartaverndar
Gunnar Sigurðsson, formaður Hjartaverndar
Kristján Óskarsson, barnaskurðlæknir
Pétur Lúðvígsson, barnalæknir
Þráinn Rósmundsson, yfirlæknir barnaskurðlækninga
Guðný Eiríksdóttir, framkvæmdarstjóri rannsókna Hjartaverndar
Sigurbjörg A. Guttormsdóttir, kennari
Gróa Gunnarsdóttir, kennari
Ásgeir Haraldsson, prófessor og yfirlæknir Barnaspítalans
Ingileif Sigfúsdóttir, deildarstjóri bráðamóttöku barna
Kristján S. Sigmundsson, formaður stjórnar Líknarsjóðs Ögnu og Halldórs Jónssonar
Martha Eiríksdóttir, stjórnarmaður í Líknarsjóðnum
Vilmundur Guðnason, forstöðulæknir Hjartaverndar
Jón Grímsson, stjórnarmaður í Líknarsjóðnum