SAGAN

Halldór Jónsson ehf var stofnað þann 1. febrúar árið 1955 af þeim hjónum Ögnu og Halldóri Jónssyni.  Starfsemin var fyrst til húsa að Hafnarstræti 18 í Reykjavík, í sögufrægu húsi frá árinu 1795 sem kallað var Jacobæusar hús.

Fyrstu árin flutti félagið aðallega inn fatnað frá Ameríku og Evrópu.

Árið 1960 gerist Halldór Jónsson umboðs og dreifingaraðili fyrir hinar heimsþekktu Wella hársnyrtivörur.   Vegna hárra tolla á þeim tíma flutti félagið inn Wella vörurnar sem hráefni og voru þær blandaðar og átappaðar í framleiðsludeild félagsins.

Árið 1961 stofnar Halldór Jónsson fyrirtækið Lystadún og byrjar viðskipti við danska fyrirtækið HJ. Lystager og er nafn félagsins Lystadún dregið af þessu danska félagi.  Þetta voru viðskipti með fjaðrir fyrir húsgagnabólstrara og í kjölfarið fylgdi skurður á svampi fyrir bólstrara og framleiðsla á svampdýnum.

Þann 23. febrúar 1977 féll Halldór Jónsson frá aðeins 61 árs að aldri og var það mikið áfall fyrir starfsmenn og félagið.

Þann 12. maí árið 1987 brann hús og allt innbú Lystadúns til kaldra kola.  Mikil mildi var að engan sakaði í þessum bruna, því svo hratt breiddist eldurinn út.

Starfsemi Lystadún var endurreist í leiguhúsnæði og var ákveðið að ráðast í nýbyggingu til að hýsa starfsemi beggja fyrirtækjanna Halldórs Jónssonar ehf og Lystadúns að Skútuvogi 11 í Reykjavík og þann 1. október 1988 fluttu félögin með alla starfsemi sína í Skútuvoginn.

Árið 1994 varð mikil breyting í rekstri Halldórs Jónssonar ehf er heildverslunin Klassík var keypt og þar með tók fyrirtækið yfir umboð og dreifingu á mörgum af þekktustu snyrtivörumerkjum heims og starfsemi snyrtivörudeildar hófst innan fyrirtækisins.  Sama ár tók félagið yfir umboð og dreifingu á Sebastian hársnyrtivörum.

Árið 2002 er rekstur Lystadúns seldur og lýkur þar með rúmlega 40 ára sögu félagsins í eigu Halldórs Jónssonar ehf.  Árið 2003  kaupir fyrirtækið rekstur fatadeildar Ágústs Ármanns ehf og stofnar þar með fatadeild innan fyrirtækisins.

Árið 2004 eykur fyrirtækið umsvif sín í Snyrtivörudeildinni og Verslunardeild með kaupum á fyrirtækinu CosNor ehf, og með því tók fyrirtækið yfir umboð og dreifingu á mörgum heimsþekktum vörumerkjum.

Rekstur fyrirtækisins er skipt upp í þrjár deildir sem eru: Snyrtivörudeild, Hárvörudeild og Verslunardeild. Fyrirtækið selur vörur til matvöruverslana, apóteka, hársnyrtistofa, snyrtivöruverslana og söluturna.